Reglur mótsins


Reglunum er ætla að tryggja jákvæða upplifun keppenda sem og öryggi þeirra.

Komum heil heim!

 1. Þátttaka í mótinu er á þína eigin ábyrgð og hvorki mótshaldarar, sjálfboðaliðar né aðrir sem koma að mótinu með einum eða öðrum hætti bera ábyrgð á þér eða eru skyldugir að koma þér til aðstoðar meðan á mótinu stendur.

 2. Keppandi verður að hafa náð 18 ára aldri til að geta tekið þátt.

 3. Grefillinn er mót þar sem keppendur hjóla án utanaðkomandi aðstoðar. Utanaðkomandi aðstoð gæti falist í, en er þó ekki bundin við, leiðsögn um keppnisbraut, næringu (að undanskilinni drykkjarstöð=, varahluti eða aðstoð við viðgerð á hjóli. Keppendum er þó heimilt að aðstoða hvern annan eftir þörfum. Þetta gefur því augaleið að fylgdarbílar eru ekki leyfðir keppninni. Ef keppandi hættir keppni er þó leyfilegt að þiggja aðstoð og láta sækja sig.

 4. Keppendum ber að passa upp á að skilja ekki eftir sig rusl. Höldum náttúrunni hreinni og fallegri. Brot á þessari reglu getur leitt til þess að keppanda verði vísað úr keppni.

 5. Ef braut er vísvitandi eða óviljandi yfirgefin skal ávallt fara inn í hana á sama stað og hún var yfirgefin. Keppendur sem tapa áttum og fara ranga leið skulu fara til baka og inn í brautina aftur á þeim stað þar sem hún var yfirgefin. Að öðrum kosti er litið svo á að keppandi hafi hætt keppni og fær því sjálfkrafa DNF.

 6. Keppandi sem hættir keppni ber að tilkynna mótsstjóra um slíkt hið fyrsta.

 7. Gerð er krafa á keppendur að þeir séu með leiðarlýsingar vistaðar í símtækjum eða GPS tækjum og geti notað þær án nettengingar. Sjá leiðbeiningar.

 8. Keppendum er skyllt að vera með á sér farsíma.

 9. Keppendum ber að virða almennar umferðarreglur og gæta ýtrustu varúðar í sprettum eða þegar einn eða fleiri slíta sig frá meginhópnum. Fylgja skal þeim umferðarmerkjum sem eru á keppnisbraut.

 10. Um hjól og búnað gilda ákvæði í kafla 2.3, 2.4 og 2.5 í reglum HRÍ, eftir því sem við á.

 11. Keppendur verða að ná fyrir tilgreindan tíma á skilgreindar stöðvar í keppnisbraut. Nái keppandi ekki á tímastöð fyrir skilgreindan tíma er hann sjálfkrafa úr keppni og fær ekki tíma mældan. Sjá nánar um tímasetningar.

 12. Ábendingar og kvartanir verða að berast til mótsstjórnar/dómara ekki síðar en 1 klst. eftir að keppandi kemur í mark.

 13. Mótsstjórn er heimilt að blása af keppni ef veðurskilyrði eru talin geta skapað hættu eða eru sérstaklega óhagstæð, hvort heldur sem er dagana fyrir mót eða meðan á móti stendur. Einnig er mótsstjórn heimilt að blása af keppni af öðrum ófyrirséðum aðstæðum. Tilkynningar um slíkt verða settar inn á heimasíðu mótsins sem og á viðburðarsíðu mótsins á Facebook.

Uppfært: 8. ágúst 2021